leikskólakennarar…

Elena Rut byrjaði á nýjum leikskóla í gær. Við ákváðum að færa hana yfir á leikskóla hérna í hverfinu eftir rúmt ár á Rofaborg í Árbænum. Málið var að við sóttum um á leikskóla í Árbæjarhverfinu meðan við bjuggum á Naustabryggjunni því við bjuggumst ekki við að flytja áður en hún byrjaði á leikskóla, en auðvitað gerðist það. Við vorum ekkert að flýta okkur að skipta um leikskóla eftir að við fluttum svo við bara keyrðum hana upp í Árbæ á leiðinni í skólann á morgnana.

En nú þegar bíllinn hefur hægt og bítandi verið að gefa upp öndina verður þessi útúrdúr sífellt meira vesen þegar hægt væri að henda henni á leikskólann hérna hinumegin við götuna. Og við semsagt sóttum um og fengum í gegn flutning á leikskólann Geislabaug sem er bókstaflega hérna ská á móti. Þvílík hamingja og allir rosa ánægðir.

Fyrstu þrír dagar vikunnar eru planaðir í aðlögun fyrir Elenu og mætum við þá með henni til stuðnings, svona meðan hún er að kynnast nýju starfsfólki og krökkum. Thelma fór með hana í gær og í morgun var komið að mér. Það er skemmst frá því að segja að Elena Rut er að taka þessum flutningi afskaplega vel og engin vandræði komið upp. Ég meira að segja fór fyrr en áætlað hafði verið og leyfði henni að klára dagin ein í dag, sem hún gerði með glæsibrag.

En þá að ástæðu þessara skrifa. Þótt ekki sé nema rétt rúmt ár síðan Elena Rut byrjaði á leikskóla (Rofaborg) og við gengum í gegnum mun erfiðari aðlögunarviku en við erum að standa í núna, hafði ég gleymt því sem ég uppgötvaði á meðan á þeirri aðlögun stóð og rifjaðist aftur upp í morgun. Þessi starfsstétt… leikskólakennarar… hvar á ég að byrja? Þetta eru hetjur! Ekki misskilja mig, ég elska barnið mitt en hún getur alveg gert mig gráhærðan stundum (eins og örugglega allir foreldrar upplifa á einhverjum tímapunkti með barnið sitt). Hvað þá ef ég hefði um það bil 20 stykki í kringum mig heilan vinnudag fimm daga vikunnar eins og leikskólakennarar. Já, þetta eru hetjur.. fer ekkert ofan af því!

Þar fyrir utan eru leikskólakennarar mjög stór póstur í uppeldi barna. Þeim er kennt að deila, bera virðingu fyrir öðrum, ganga frá eftir sig og fleira í þeim dúr svo þau verði sjálfstæðari. Ég gleymi ekki muninum á Elenu Rut eftir að hún byrjaði fyrst á leikskóla. Lokaða, feimna stelpan sem lék sér oftast bara ein fór að vilja leika með öðrum, skiptast á dótinu og koma til annars fólks en okkar foreldranna. Það var allavega virkilega gaman að rifja upp og fá smá innsýn inn í starfið sem fram fer á leikskólum og sjá leikskólakennara sem eru fæddir í þetta starf sinna og leiðbeina börnunum af alúð.

En já, þetta var minn óður til leikskólakennara! 🙂

dugnaðurinn…

Jahérna hér…

Aðeins 7 mánuðir frá síðustu færslu. Hvað getur maður sagt… Reyndar ætla ég að skýla mér á bakvið það að síðasta önn í skólanum var sú allra allra erfiðasta hingað til. Verkefnaálag og bara erfið fög!

En nóg um það. Sumarið er barasta búið líka og þrátt fyrir að hafa lagt gríðarlega vinnu í og verið mjög svo tímanlega í að sækja um sumarstörf hjá hinum og þessum fyrirtækjum sem ég gæti mögulega fengið einhverjar reynslu á því sviði sem tengist mínu námi fékk ég ekkert nema “Takk fyrir að sækja um, en við höfum ráðið í allar stöður” ef ég þá fékk svar yfir höfuð. En það þýðir nú lítið að láta það eitthvað á sig fá, og þegar mér var orðið ljóst að ég fengi ekki starf í sumar sem tengdist náminu var bara farið og sótt um hin ýmsu verkamannastörf hér í borginni og endaði ég á að vinna á Bílavellinum hjá Samskip.

Hluti af bílavellinum hjá SamskipHluti af bílavellinum hjá Samskip

Ég hef gaman af því að prófa nýja hluti, en satt best að segja ætlaði ég ekki að trúa því að það væri fullt starf fyrir nokkra aðila að losa nýja bíla út úr gámum á hafnarbakknum, setja á þá smá bensíndreitil og leggja þeim. En sú varð sko heldur betur raunin. Í byrjun sumars var bara brjááálað að gera í akkúrat þessu, endalaus yfirvinna og allt að frétta. Bílaleigurnar vantaði bíla til að leigja túristunum okkar! En svo þegar var komið fram í júní var aðeins farið að róast og menn gátu farið að taka sumarfrí. Þá var ég settur inn á skrifstofu í bókhaldið og aðra tölvuvinnu (tölvupóstsamskipti og símsvörun) og var ég í því þar til ég hætti 19. ágúst til að byrja aftur í skólanum. Heilt yfir var þetta hin fínasta sumarvinna, en þetta var í fyrsta sumarið síðan við fluttum í borgina sem við förum ekki til Eyja að vinna yfir sumartímann. Thelma vann í sumar í félagsmiðstöðinni sem hún vinnur með skóla, sem var fínt því hún fór þá í sumarfrí á sama tíma og Elena Rut fór í sumarfrí á leikskólanum.

Nú erum við hins vegar öll byrjuð í skólanum aftur og líka bara vel. Elena Rut kemur til með að skipta um leikskóla um næstu mánaðarmót, en þá ætlar hún að byrja á Geislabaugi sem er bara hinum megin við götuna. Það verður mega næs þótt hún (og við) eigum eftir að sakna krakkanna og starfsfólksins á Rofaborg. En nú verðu hún með Kolbrúnu Eddu frænku sinni á leikskóla og hún talar ekki um annað þessa dagana 🙂

Jæja, látum þetta duga í bili…

P.S. Þjóðhátíðin var GEÐVEIK!

operation sumarstarf…

Það er ekki seinna vænna að fara huga að því hvað maður ætlar að gera af sér í sumar. Það eina sem við fjölskyldan höfum ákveðið er að það verður ekki farið til Eyja þetta sumarið. Við erum bæði komin á þann stað í náminu að best væri að fá vinnu tengda því sem fyrst og væri því æskilegast ef maður krækti í eitthvað starf sem byði upp á einmitt það, eða allavega möguleikann á að vinna sig upp í svoleiðis starf seinna meir. Já, ég er semsagt byrjaður að leita mér að starfi hjá fyrirtæki sem ég gæti mögulega unnið hjá í hlutastarfi með skóla eftir sumarið.

Það er algjörlega „krúsjal“ að byrja sem fyrst að ná sér í einhverja reynslu sem fyrst þó það þýði að maður þurfi að hoppa út í djúpu laugina. Ég verð hálfnaður með námið í sumar (vona að ég sé ekki að jinxa prófin!) og ég tel mig vera kominn með næga kunnáttu til að geta nýst að einhverju leiti í forritunarvinnu. Þannig að nú er bara að krossa fingur og vona það besta. Ég byrjaði á að sækja um vinnu á þeim stöðum sem ég fann í fljótu bragði í gegnum hinar ýmsu ráðningarsíður en ætla svo að leggjast yfir og gera lista yfir fyrirtæki í þessum bransa sem ráða til sín fólk eftir öðrum leiðum en í gegnum ráðningasíðurnar (lesist: ráða helst bara fólk sem einhver sem þau treysta mælir með). Það sakar ekki að reyna allavega 🙂

En auðvitað sæki ég um á fleiri stöðum til að hafa í bakhöndinni, því ekki þýðir að vera pikkí á störf þegar maður er fátækur námsmaður og þarf nauðsynlega á innkomunni að halda… en við bara vonum það besta!

nýtt ár…

Þá er nýtt ár gengið í garð (og reyndar svolítið síðan) en mitt eina áramótaheit, ef áramótaheit skal kalla, var að koma með tíðari uppfærslur hérna inn. Það byrjar ekkert svakalega vel…

En af okkur litlu fjölskyldunni í Grafarholtinu er allt gott að frétta. Sú stutta vex og dafnar á leikskólanum eins og við var að búast og allt komið á fullt hjá okkur foreldrunum í skólanum. Það styttist í tveggja ára afmælið hjá Elenu Rut og erum við mikið spennt fyrir því enda ótrúlegt að það séu komin tvö ár síðan hún mætti á svæðið! Ég gæti haldið endalaust áfram um uppátækjasemi einkadótturinnar og hversu fyndin hún er en það er eiginlega bara efni í annan pistil, ef ekki nokkra og ætla ég að bíða með það til betri tíma.

Ég hugsa reglulega til þessa bloggs og þess tíma þegar allir (ok, ekki allir en margir) voru að blogga með söknuði. Ég hef talað við marga sem voru virkir í blogginu á árum áður sem hafa sömu sögu að segja og finnst miður hvernig facebook hefur „drepið“ bloggarann. Ég veit ekki almennilega hvað það er en ég virðist einmitt eiga mjög erfitt með að koma mér aftur í rútínu að skrifa nokkrar línur eða henda einhverju skemmtilegu hérna inn reglulega. Í hausnum á mér afsaka ég þetta með því að ég sé svo upptekinn í skólanum en bæði ég og samviskan mín vitum að það er helber lygi.

Þetta er því minn fyrsti póstur á því herrans ári 2016 og vonandi, nei – þeir eiga pottþétt eftir að verða fleiri en í fyrra. Staðreyndin er nefninlega sú að ég er ekki að gera þetta fyrir neinn annan en sjálfan mig því ég fór yfir bloggferilinn minn nýlega sem spannar hvorki meira né minna en 14 ár (að meðtöldum nokkrum hléum auðvitað, en ég byrjaði að blogga í apríl 2002!) og komst að því að ég hafði gleymt stórum hluta af bloggum þegar ég skipti um bloggumhverfi og fór á minn eigin server. Ég hafði gleymt að flytja inn færslur af gamla góða blogger.com, þar sem ég var til að byrja með, en þar voru um 100 færslur sem ég hafði algjörlega gleymt. Það varð einmitt til þess að ég ákvað að taka mig á (sem reyndar skilaði ekkert rosalega mörgum færslum hingað inn) en þegar nýtt ár gekk í garð og fólk fór að spá og spyrja út í áramótaheit byrjaði ég á að fussa og svei-a því ég held ég hafi ekki strengt áramótaheit áður (allavega ekki neitt alvöru að ég held). En eftir smá umhugsun negldi ég niður það það markmið að skrifa oftar hingað inn en ég gerði í fyrra og ekki er það nú mjög háleitt markmið. Færslurnar voru 11 í fyrra og því þarf ég ekki nema að skrifa eina færslu í mánuði til að ná því. En reynslan segir manni að það sé best að byrja hægt, hver veit nema ég komi þessu í vana. Ég held nefninlega að lykillinn að því að gera það sé að koma því inn í hausinn á sér að pistlar/færslur sem maður hendir hingað inn þurfa ekki að vera fleiri hundruð orð (þótt þessi stefni hraðbyri að einmitt því), heldur er líka hægt að henda inn myndum, myndböndum, stöðuuppfærslu(já bara eins og á facebook) eða bara hverju sem manni dettur í hug því þetta er jú eins konar dagbók sem ég veit að ég á eftir að hafa gaman af að glugga í eftir x mörg ár, alveg eins og ég er byrjaður að lesa í gegnum elstu bloggfærslurnar núna hugsandi að það hljóti einhver annar en ég að hafa skrifað þetta… 🙂

Game on!

raunveruleikinn…

Rakst á ansi skemmtilegar myndir sem lýsa svolítið ástandinu á Kristnibrautinni síðustu daga með lítinn herforingja við völd, sem stækkar og þroskast svo hratt og vill meina að heimurinn eigi að snúast í kringum sig…

Flestir dagar byrja svona
Við matarborðið…
“Ó… mátti ég ekki henda öllum snuddunum í klósettið?”
Thelma er svolítið að vinna með þetta þessa dagana 🙂