dugnaðurinn…

Jahérna hér…

Aðeins 7 mánuðir frá síðustu færslu. Hvað getur maður sagt… Reyndar ætla ég að skýla mér á bakvið það að síðasta önn í skólanum var sú allra allra erfiðasta hingað til. Verkefnaálag og bara erfið fög!

En nóg um það. Sumarið er barasta búið líka og þrátt fyrir að hafa lagt gríðarlega vinnu í og verið mjög svo tímanlega í að sækja um sumarstörf hjá hinum og þessum fyrirtækjum sem ég gæti mögulega fengið einhverjar reynslu á því sviði sem tengist mínu námi fékk ég ekkert nema “Takk fyrir að sækja um, en við höfum ráðið í allar stöður” ef ég þá fékk svar yfir höfuð. En það þýðir nú lítið að láta það eitthvað á sig fá, og þegar mér var orðið ljóst að ég fengi ekki starf í sumar sem tengdist náminu var bara farið og sótt um hin ýmsu verkamannastörf hér í borginni og endaði ég á að vinna á Bílavellinum hjá Samskip.

Hluti af bílavellinum hjá SamskipHluti af bílavellinum hjá Samskip

Ég hef gaman af því að prófa nýja hluti, en satt best að segja ætlaði ég ekki að trúa því að það væri fullt starf fyrir nokkra aðila að losa nýja bíla út úr gámum á hafnarbakknum, setja á þá smá bensíndreitil og leggja þeim. En sú varð sko heldur betur raunin. Í byrjun sumars var bara brjááálað að gera í akkúrat þessu, endalaus yfirvinna og allt að frétta. Bílaleigurnar vantaði bíla til að leigja túristunum okkar! En svo þegar var komið fram í júní var aðeins farið að róast og menn gátu farið að taka sumarfrí. Þá var ég settur inn á skrifstofu í bókhaldið og aðra tölvuvinnu (tölvupóstsamskipti og símsvörun) og var ég í því þar til ég hætti 19. ágúst til að byrja aftur í skólanum. Heilt yfir var þetta hin fínasta sumarvinna, en þetta var í fyrsta sumarið síðan við fluttum í borgina sem við förum ekki til Eyja að vinna yfir sumartímann. Thelma vann í sumar í félagsmiðstöðinni sem hún vinnur með skóla, sem var fínt því hún fór þá í sumarfrí á sama tíma og Elena Rut fór í sumarfrí á leikskólanum.

Nú erum við hins vegar öll byrjuð í skólanum aftur og líka bara vel. Elena Rut kemur til með að skipta um leikskóla um næstu mánaðarmót, en þá ætlar hún að byrja á Geislabaugi sem er bara hinum megin við götuna. Það verður mega næs þótt hún (og við) eigum eftir að sakna krakkanna og starfsfólksins á Rofaborg. En nú verðu hún með Kolbrúnu Eddu frænku sinni á leikskóla og hún talar ekki um annað þessa dagana 🙂

Jæja, látum þetta duga í bili…

P.S. Þjóðhátíðin var GEÐVEIK!

operation sumarstarf…

Það er ekki seinna vænna að fara huga að því hvað maður ætlar að gera af sér í sumar. Það eina sem við fjölskyldan höfum ákveðið er að það verður ekki farið til Eyja þetta sumarið. Við erum bæði komin á þann stað í náminu að best væri að fá vinnu tengda því sem fyrst og væri því æskilegast ef maður krækti í eitthvað starf sem byði upp á einmitt það, eða allavega möguleikann á að vinna sig upp í svoleiðis starf seinna meir. Já, ég er semsagt byrjaður að leita mér að starfi hjá fyrirtæki sem ég gæti mögulega unnið hjá í hlutastarfi með skóla eftir sumarið.

Það er algjörlega „krúsjal“ að byrja sem fyrst að ná sér í einhverja reynslu sem fyrst þó það þýði að maður þurfi að hoppa út í djúpu laugina. Ég verð hálfnaður með námið í sumar (vona að ég sé ekki að jinxa prófin!) og ég tel mig vera kominn með næga kunnáttu til að geta nýst að einhverju leiti í forritunarvinnu. Þannig að nú er bara að krossa fingur og vona það besta. Ég byrjaði á að sækja um vinnu á þeim stöðum sem ég fann í fljótu bragði í gegnum hinar ýmsu ráðningarsíður en ætla svo að leggjast yfir og gera lista yfir fyrirtæki í þessum bransa sem ráða til sín fólk eftir öðrum leiðum en í gegnum ráðningasíðurnar (lesist: ráða helst bara fólk sem einhver sem þau treysta mælir með). Það sakar ekki að reyna allavega 🙂

En auðvitað sæki ég um á fleiri stöðum til að hafa í bakhöndinni, því ekki þýðir að vera pikkí á störf þegar maður er fátækur námsmaður og þarf nauðsynlega á innkomunni að halda… en við bara vonum það besta!

nýtt ár…

Þá er nýtt ár gengið í garð (og reyndar svolítið síðan) en mitt eina áramótaheit, ef áramótaheit skal kalla, var að koma með tíðari uppfærslur hérna inn. Það byrjar ekkert svakalega vel…

En af okkur litlu fjölskyldunni í Grafarholtinu er allt gott að frétta. Sú stutta vex og dafnar á leikskólanum eins og við var að búast og allt komið á fullt hjá okkur foreldrunum í skólanum. Það styttist í tveggja ára afmælið hjá Elenu Rut og erum við mikið spennt fyrir því enda ótrúlegt að það séu komin tvö ár síðan hún mætti á svæðið! Ég gæti haldið endalaust áfram um uppátækjasemi einkadótturinnar og hversu fyndin hún er en það er eiginlega bara efni í annan pistil, ef ekki nokkra og ætla ég að bíða með það til betri tíma.

Ég hugsa reglulega til þessa bloggs og þess tíma þegar allir (ok, ekki allir en margir) voru að blogga með söknuði. Ég hef talað við marga sem voru virkir í blogginu á árum áður sem hafa sömu sögu að segja og finnst miður hvernig facebook hefur „drepið“ bloggarann. Ég veit ekki almennilega hvað það er en ég virðist einmitt eiga mjög erfitt með að koma mér aftur í rútínu að skrifa nokkrar línur eða henda einhverju skemmtilegu hérna inn reglulega. Í hausnum á mér afsaka ég þetta með því að ég sé svo upptekinn í skólanum en bæði ég og samviskan mín vitum að það er helber lygi.

Þetta er því minn fyrsti póstur á því herrans ári 2016 og vonandi, nei – þeir eiga pottþétt eftir að verða fleiri en í fyrra. Staðreyndin er nefninlega sú að ég er ekki að gera þetta fyrir neinn annan en sjálfan mig því ég fór yfir bloggferilinn minn nýlega sem spannar hvorki meira né minna en 14 ár (að meðtöldum nokkrum hléum auðvitað, en ég byrjaði að blogga í apríl 2002!) og komst að því að ég hafði gleymt stórum hluta af bloggum þegar ég skipti um bloggumhverfi og fór á minn eigin server. Ég hafði gleymt að flytja inn færslur af gamla góða blogger.com, þar sem ég var til að byrja með, en þar voru um 100 færslur sem ég hafði algjörlega gleymt. Það varð einmitt til þess að ég ákvað að taka mig á (sem reyndar skilaði ekkert rosalega mörgum færslum hingað inn) en þegar nýtt ár gekk í garð og fólk fór að spá og spyrja út í áramótaheit byrjaði ég á að fussa og svei-a því ég held ég hafi ekki strengt áramótaheit áður (allavega ekki neitt alvöru að ég held). En eftir smá umhugsun negldi ég niður það það markmið að skrifa oftar hingað inn en ég gerði í fyrra og ekki er það nú mjög háleitt markmið. Færslurnar voru 11 í fyrra og því þarf ég ekki nema að skrifa eina færslu í mánuði til að ná því. En reynslan segir manni að það sé best að byrja hægt, hver veit nema ég komi þessu í vana. Ég held nefninlega að lykillinn að því að gera það sé að koma því inn í hausinn á sér að pistlar/færslur sem maður hendir hingað inn þurfa ekki að vera fleiri hundruð orð (þótt þessi stefni hraðbyri að einmitt því), heldur er líka hægt að henda inn myndum, myndböndum, stöðuuppfærslu(já bara eins og á facebook) eða bara hverju sem manni dettur í hug því þetta er jú eins konar dagbók sem ég veit að ég á eftir að hafa gaman af að glugga í eftir x mörg ár, alveg eins og ég er byrjaður að lesa í gegnum elstu bloggfærslurnar núna hugsandi að það hljóti einhver annar en ég að hafa skrifað þetta… 🙂

Game on!

raunveruleikinn…

Rakst á ansi skemmtilegar myndir sem lýsa svolítið ástandinu á Kristnibrautinni síðustu daga með lítinn herforingja við völd, sem stækkar og þroskast svo hratt og vill meina að heimurinn eigi að snúast í kringum sig…

Flestir dagar byrja svona
Við matarborðið…
“Ó… mátti ég ekki henda öllum snuddunum í klósettið?”
Thelma er svolítið að vinna með þetta þessa dagana 🙂

„Líf þitt rúmast því miður ekki innan fjárlaga“

Í gær féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem íslenska ríkið var sýknað af kröfu Fanneyjar Bjarkar Ásbjörnsdóttur, en Fanney stefndi ríkinu eftir að henni var synjað um lífsnauðsynlega lyfjameðferð við lifrarbólgu C. Fanney smitaðist af sjúkdómnum við blóðgjöf á sjúkrahúsi eftir barnsburð fyrir rúmum 30 árum.

Ríkið sýknað af stefnu Fanneyjar Bjarkar í Héraðsdómi

Ég las stuttlega yfir dóminn og blöskraði þegar mér varð ljós raunveruleg ástæða þess að henni er synjað um þessi lyf. Peningar. Við erum að tala um það að íslenska ríkið hefur nú loksins opinberlega verðlagt mannslíf. Þótt ekki sé hægt að greina nákvæma tölu þá er nokkuð ljóst að 7 – 10 milljónir (sem er áætlað að þessi nýja lyfjameðferð kosti) er yfir verðgildi mannslífs að mati íslenska ríkisins auk þess að „fyrirsjáanlegt sé að fleiri sjúklingar þurfi á meðferðinni að halda“.

Úr dómnum:

„Er því einnig lýst að lyfið Harvoni hafi markaðsleyfi á Íslandi en hafi ekki verið markaðssett. Nefndin hafi samþykkt verð á lyfinu en hafi hafnað umsókn umboðsaðilans um leyfisskyldu fyrir lyfið þar sem kostnaður við notkun þess rúmist ekki innan fjárlaga ársins. Þá kemur fram að nefndin hafi ákveðið að synja um einstaklingsbundna þátttöku í lyfinu á þeim forsendum að fyrirsjáanlegt sé að fleiri sjúklingar þurfi á meðferðinni að halda en sá, sem vísað sé til í beiðni lyfjanefndar Landspítala, en ekki hafi verið tryggt fjármagn til að taka upp nýja meðferð við lifrarbólgu C.

Harvoni er semsagt þetta nýja lyf, en Fanney hefur þegar reynt þau úrræði sem fólki með þennan alvarlega sjúkdóm stendur til boða hér á landi. Það eru lyfin Interferon og Ribavirin en þau lyf eru talin úrelt í nágrannalöndum okkar. Meðferðin stendur yfir í 48 vikur, er afar erfið og hefur í för með sér miklar aukaverkanir líkt og var í tilfelli Fanneyjar, en hún þurfti að hætta meðferð sökum þeirra. Þessi nýju lyf sem gefa um 95% líkur á bata og engar aukaverkanir, eru því í boði fyrir fólk í nágrannalöndum okkar og þykja sjálfsögð mannréttindi þegna þeirra sem smitast af þessum lífshættulega sjúkdómi. Hér á Íslandi er hinsvegar áfram haldið að kaupa ódýrari, úrelt lyf með um 70% líkum á bata og gífurlegum aukaverkunum handa okkur ruslflokks Evrópubúunum.

Höfum það í huga að Fanney hafði verið ósjúkdómsgreind síðan 1983 þegar hún loksins var greind með lifrarbólgu C árið 2010. Á þessum tíma hefur hún haft skerta vinnugetu og ekki getað lifað eðlilegu lífi, en hún er nú 65% öryrki vegna þessa. Það er því ljóst að lífsgæði Fanneyjar hafa skerst gríðarlega í kjölfar þessa atburðar, og líklegt að sein sjúkdómsgreining hafi ekki hjálpað til (án þess að ég sé læknir, þá efast ég um að svo langur tími hjálpi til). Því lítur þetta þannig út fyrir mér að ríkið (sjúkrahúsin) hafa brugðist Fanneyju ítrekað. Fyrst þegar henni er gefið sýkt blóð sem smitar hana af sjúkdómnum, svo með því að hafa ekki samband við hana þegar upp um þetta komst (að sýkt blóð hafi komist í umferð) og að lokum öll þessi ár sem það tók að fá rétta sjúkdómsgreiningu. Það að ætla að skýla sér á bakvið fjárlög (sem vissulega er eitthvað sem stendur fyrir dómstólum þar sem þetta eru nú einu sinni lög) er í besta falli barnalegt þegar um svona stórt mannréttindamál er að ræða. Satt best að segja beið ég alltaf eftir því að einhver úr núverandi ríkisstjórn myndi stökkva á þetta mál til að bjarga hrapandi fylgi stjórnarflokkanna, því eins og sjá má í kommentakerfum allra helstu miðla sem fjalla um þetta mál logar allt, bæði vegna niðurstöðu dómsins og svo bara vegna þeirrar sturluðu staðreyndar að sjúklingur þurfi að vera að standa í málaferlum til að sækja sjálfsögð mannréttindi!

Fanney Björk um dóminn: „Dauðadómur yfir mér“
Fanney - Kommentakerfi Visir.isAthugasemdir við frétt um þetta mál á visir.is

Nú þegar ég hafði fengið það staðfest að peningar væru ástæða þess að Fanney fengi ekki þessa meðferð fór ég að glugga í nýtt fjárlagafrumvarp sem leit dagsins ljós þann 8. september síðastliðinn. Strax á fyrstu glæru í kynningunni sést að afkoma Ríkissjóðs er áætluð jákvæð um rúma 15 milljarða. Það er rosalega gott að geta státað af jákvæðum Ríkiskassa annað eða þriðja árið í röð og ætlast til að allir eigi að hoppa hæð sína yfir því. En á meðan heilbrigðismálin í landinu eru á þeim stað sem þau eru í dag og eins samgöngumálin, þá ætla ég allavega að bíða með hoppið. Það að Fanney fái ekki meina sinna bót vegna skitinna 7 – 10 milljóna er bara ekki boðlegt.

Í reiði minni í gær eftir að hafa lesið þennan úrskurð var ég búinn að taka til útgjöld ríkisins til Kirkjunnar sem dæmi um stað þar sem hægt væri að skera niður til að veita meira fé til heilbrigðismála en hef ákveðið að láta það ekki fylgja þar sem ég tel það muni á skyggja megin skilaboð þessa pistils. En mín skoðun er hinsvegar sú að í fjárhagsáætlun ríkisins eigi að tryggja grundvallar mannréttindi allra í landinu (starfhæft heilbrigðiskerfi og aðgang sjúklinga að lyfjum t.d.) áður en farið er í gæluverkefni eins og trúmál.

Að þessu sögðu finnst mér þetta vera enn einn áfellisdómurinn yfir ríkisstjórn landsins sem hefur ekki enn gripið inn í þetta risastóra mannréttindamál, heldur er dýrmætum tíma eytt fyrir dómstólum til tryggja að ekki þurfi að taka upp þessi nýju lyf alveg strax. Það vita það allir að þessi lyf munu á endanum verða tekin upp hér á landi svo þessi gjörningur hljómar bara sem tilraun til að halda óvæntum útgjöldum þessa uppgjörsárs í lágmarki, svona eins og þegar maður vonar að bíllinn bili allavega ekki fyrr en ég fæ endurgreitt frá skattinum. Það er allt reynt til að tölurnar í excel skjalinu séu grænar og fínar, skítt með fólkið í landinu! (Þess má geta að fram kom í niðurlagi þessa dóms að kostnaður ríkisins við þetta dómsmál var 3,8 milljónir króna, eða tæplega helmingur kostnaðar við meðferðina sem Fanney sækist eftir).

Er þetta uppskrift að samfélagi sem gengur upp?